Dómstóll í Nice í Frakklandi hefur dæmt eiginkonu 51 árs karlmanns skaðabætur upp á 10.000 evrur, um 1,6 milljónir króna, að sögn Dagens Nyheter. Konan, sem er 47 ára, skildi við manninn fyrir tveim árum og segir hann hafa verið allt of nískan á kynlíf.
En konunni fannst ekki nóg að skilja við manninn heldur heimtaði hún bætur fyrir ,,skort á kynlífi í 21 árs hjónabandi."
Maðurinn afsakaði sig með ,,þreytu og heilsufarsvandamálum" sem hefðu valdið því að hann hefði ekki haft meiri áhuga á bólförum. Dómstóllinn úrskurðaði konunni í vil og nefndi til ákveðnar lagagreinar. ,,Kynferðislegt samband milli eiginmanns og eiginkonu er tákn um þá ást sem þau bera í brjósti til hvort annars og í þessu tilfelli skorti hana," sagði í dóminum. Gifting merkti ,,samkomulag um að deila lífi sínu með öðrum og án nokkurs efa að eiga kynmök saman. "