Sendi einkaþotu eftir skóm

Frú Mayawati.
Frú Mayawati.

Forsætisráðherra indverska fylkisins Uttar Pradesh sendi einkaþotu til að sækja sandala fyrir sig til Mumbai. Þetta kemur fram í bandarískum sendiráðspósti, sem uppljóstrunarvefurinn WikiLeaks hefur birt.

Kumari Mayawati ríkir yfir fjölmennasta fylki Indlands en það er einnig eitt af þeim fátækustu í landinu. Sendiráðspóstarnir benda þó til þess, að Mayawati berist mikið á og sé afar upptekin af því að vera forsætisráðherra.

Í skeyti, sem dagsett er 23. október 2008 og merkt trúnaðarmál, segir: „Þegar hana vantaði nýja sandala flaug einkaþota hennar tóm til Mumbai til að sækja þá skó sem hún vildi."

Þá kemur fram í póstunum að Mayawati óttist um líf sitt og hafi meðal annars smakkara í þjónustu sinni til að ganga úr skugga um að maturinn, sem henni er færður, sé ekki eitraður. 

Fram kemur á vef breska útvarpsins BBC, að Mayawati haldi fast um stjórnvölinn í Uttar Pradesh. Hún hefur verið gagnrýnd fyrir að láta reisa af sér styttur en hún hefur samt vísað því á bug, að hún ýti undir persónudýrkun.

Mayawati fæddist í einu úthverfa Nýju-Delhí árið 1956. Fjölskylda hennar stóð neðst í virðingarstiga Indverja og taldist til svokallaðra "Chamar" eða leðurverkenda. Hún nam lög og lauk síðar kennaraprófi í Nýju-Delhí þar sem hún starfaði sem kennari er hún kynntist indverska stjórnmálamanninum Kanshi Ram seint á áttunda áratugnum. Ram fékk Mayawati til að leggja af áform um að gerast ríkisstarfsmaður. Sagt er að hann hafi tjáð henni að henni væri ekki ætlað þjónustuhlutverk í lífinu því hún væri „fædd til forystu".

Ram stofnaði Bahujan Samaj-flokkinn í aprílmánuði árið 1984 í þeim yfirlýsta tilgangi að tryggja dalítum skriðþunga í indverskum stjórnmálum eftir að hafa sætt kúgun öldum saman af hálfu þeirra hindúa sem ofar standa innan erfðastéttakerfisins. Mayawati varð snemma einn af helstu leiðtogum flokksins og árið 2001 útnefndi Ram hana arftaka sinn. Samband þeirra vakti löngum athygli og umtal á Indlandi og var því m.a. haldið fram að hún væri ástkona Rams, sem nú er látinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert