Feðgin létust af skotsárum

Karl og kona fundust látin af skotsárum í Faxe Ladeplads á Suður-Sjálandi í Danmörku í dag. Talið er að um fjölskylduharmleik sé að ræða, að sögn fréttavefjar Ekstra Bladet.

Lögreglan hefur staðfest að hleypt hafi verið af skotum og að tvö lík hafi fundist í einbýlishúsinu. Ekstrabladet.dk hefur fregnað að hin látnu séu feðgin sem bjuggu ein í húsinu. Talið er að faðirinn hafi myrt dóttur sína og svipt sig síðan lífi. Lögreglan hefur ekki viljað staðfesta það.

Lögreglan tók mann á staðnum og var hann klæddur í hvítan samfesting úr plasti þegar hann var leiddur á brott. Búningurinn var til að varðveita erfðaefni og aðrar vísbendingar. Stjórnandi lögreglurannsóknar á vettvangi neitaði því að maðurinn hafi verið handtekinn.

Vitni kváðust hafa heyrt þrjá skothvelli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert