Þýski stjórnlagadómstóllinn kann að kippa fótunum undan evrusamstarfinu, ákveði dómurinn að aðstoð Þjóðverja við efnahagslega aðþrengd lönd sé ólögleg. Von er á niðurstöðu dómstólsins í Karlsruhe í Þýskalandi klukkan tíu í fyrramálið, að sögn fréttavefjarins business.dk.
Mikið veltur á niðurstöðu dómstólsins, en hann mun kveða upp úr um hvort stuðningur Þýskalands við hið efnahagslega aðþrengda Grikkland hafi verið ólöglegur.
Verði sú raunin kann niðurstaðan að binda enda á frekari þátttöku Þjóðverja í aðstoð við suðurevrópsk lönd sem eiga í efnahagsþrengingum og eins getur það orðið fyrsta skrefið til þess að kippa fótunum undan evrunni, að mati fréttavefjarins.
Þar er m.a. vitnað í Allan von Mehren, yfirmann greiningardeildar Danske Bank, og segir hann að reynist aðstoð Þjóðverja vera ólögleg skapist mikil óvissa. „Ef Þýskaland getur ekki tekið þátt í að gera þessar áætlanir þá verður í raun ómögulegt að framkvæma þær og þá verður evrunni kastað út í mikla kreppu.“