Heilt íshokkílið fórst í flugslysi

Frá slysstaðnum í dag.
Frá slysstaðnum í dag. Reuters

Nú er ljóst að 43 að minnsta kosti létu lífið og tveir slösuðust lífshættulega þegar flugvél fórst í flugtaki í vesturhluta Rússlands í dag. Rússneskt íshokkílið var um borð í vélinni, þar á meðal landsliðsmarkvörður Svía.

Rússneska almannavarnaráðuneytið sagði, að flugvélin, sem var af gerðinni Yak-42, hefði brotlent strax eftir flugtak frá flugvelli nálægt borginni Jaroslavl við ána Volgu, um 240 km norðaustur af Moskvu.

Um borð voru 45 manns, 37 farþegar og átta manna áhöfn. Veðrið var gott og bjart þegar slysið varð. 

Flugvélin var að flytja Lokomotov-íshokkíliðið frá Jaroslavl til Minsk í Hvíta-Rússlandi þar sem það átti að leika fyrsta leikinn í Kontinental-íshokkídeildinni við Dinamo Minsk. Þar leika lið frá Rússlandi, Hvíta-Rússlandi, Kasakstan, Lettlandi og Slóvakíu. 

Nokkrir heimskunnir íshokkíleikarar léku með Lokomotiv, þar á meðal sænski markvörðurinn Stefan Liv, sem hefur varið mark sænska landsliðsins í íshokkí, en hann  gekk til liðs við rússneska liðið fyrr á þessu ári.

Lið Lokomotiv.
Lið Lokomotiv. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka