Bandarískir embættismenn rannsaka nú vísbendingar um, að verið sé að undirbúa nýja hryðjuverkaárás á Bandaríkin, líklega Washington og New York, nú þegar réttur áratugur er liðinn frá hryðjuverkaárásunum 11. september 2001.
Fox sjónvarpsstöðin sagði, að Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hafi verið upplýstur um málið. Sjónvarpsstöðin NBC sagði, að verið væri að ræða um hvort hækka eigi viðbúnaðarstig í Bandaríkjunum vegna hryðjuverkahættu.
Í yfirlýsingu frá heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna segir, að upplýsingar, sem ekki hafi fengist staðfestar en séu taldar trúverðugar, bendi til tiltekinnar hættu. Gripið hafi verið til allra þeirra ráðstafana sem tiltækar séu til að draga úr hættunni.