Rússar þurfa að nútímavæða flugið

Dmitry Medvedev lagði blóm á slysstaðnum þar sem flugvélin brotlenti …
Dmitry Medvedev lagði blóm á slysstaðnum þar sem flugvélin brotlenti í gær. Reuter

Forseti Rússlands, Dmitry Medvedev, gagnrýndi harðlega í dag flugöryggismál í landinu og krafðist þess að ítarleg rannsókn yrði gerð á flugslysi sem varð 43 að bana í gær en þeirra á meðal voru meðlimir rússnesks hokkíliðs.

Medvedev boðaði til fundar á slysstaðnum í þorpinu Tunoshna, fyrir utan borgina Yaroslavi, og viðstaddir voru m.a. samgöngumálaráðherrann Igor Levitin og neyðarmálaráðherrann Sergei Shoigu.

„Ég hef gefið rannsóknarnefndinni og ríkisstjórninni skipun um að rannsaka málið í þaula,“ sagði Medvedev, eftir að hann lagði blóm á slysstaðinn. „Þetta er afar óheppilegt ástand og röð flugslysa í sumar sannar það. Við getum ekki haldið svona áfram.“

„Við þurfum að byggja upp nútímaleg fyrirtæki  um allt Rússland,“ bætti hann við og sagði enn fremur að ef ekki væri hægt að framleiða öruggar flugvélar í landinu þyrfti að kaupa erlendar vélar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert