Meðal umræðuefna í rökræðum Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur og Helle Thorning-Schmidt, formanns Sósíaldemókrataflokksins, á dönsku sjónvarpsstöðinni TV2 í kvöld, var verð á lestarkorti og mjólkurlítra.
„Hvað kostar mánaðarkort í lest? Veist þú það?“ spurði Thorning-Schmidt. Forsætisráðherrann gat ekki svarað því, en hann sagði við blaðamann danska dagblaðsins Jyllands-Posten að kappræðunum loknum, að slíkar spurningar væru í besta lagi.
„Ég held að ég hafi ágætis þekkingu á daglegu lífi. Ég veit til dæmis hvað einn lítri af léttmjólk kostar í Netto,“ sagði Rasmussen, sem sagðist ekki vita hvað lífræn mjólk kostaði, hann hefði ekki efni á að kaupa hana.
Meðal annarra umræðuefna þessara höfuðandstæðinga í dönskum stjórnmálum voru eftirlaun og lengri vinnutími í landinu.