Dan Meridor, ísraelski ráðherra leyniþjónustumála, segir hótun forsætisráðherra Tyrklands um að láta herskip fylgja skipalest með hjálpargögn til Gazastrandarinnar alvarlega. Hann hafi þó ekki áhuga á að bæta á spennuna á milli landanna með frekari viðbrögðum.
Recep Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, sagði í gær að hann væri tilbúinn til að senda flotann til þess að fylgja tyrkneskum skipum með hjálpargögn til Gaza. Níu Tyrkir féllu þegar ísraelskir hermenn réðust um borð í eitt skipanna sem var að flytja hjálpargögn til Palestínu í maí í fyrra. Hafa Ísraelar staðfastlega neitað að biðjast afsökunar á árásinni.
„Þessi ummæli eru sterk og alvarleg en við viljum ekki bæta á deiluna. Það er betra að þegja og bíða, við höfum engan áhuga á að gera ástandið verra með því að svara slíkum árásum,“ sagði Meridor í viðtali við útvarpsstöð ísraelska hersins.