Egypsk stjórnvöld hafa lýst yfir viðbúnaðarstigi vegna óeirða í höfuðborg landsins, Kaíró. Fjölmennur hópur gerði atlögu að sendiráði Ísrael í borginni í gærkvöldi en starfsmenn sendiráðsins hafa nú verið fluttir úr landi.
Öryggissveitir sprautuðu táragasi á mótmælendur sem svöruðu með því að kasta grjóti og bensínssprengjum að lögreglu. Hundruð slösuðust í óeirðunum, samkvæmt frétt BBC.
Mótmælendur höfðu komið saman á Tahrir-torgi eftir föstudagsbænir í gær en hluti þeirra fór síðan að ísraelska sendiráðinu. Mótmælendur brutu sér leið inn í sendiráðið og fóru inn á skrifstofur þess þar sem þeir tóku sendiráðsgögn og hentu út um glugga byggingarinnar.
Herráð Egyptalands mun funda í dag vegna ástandsins en mótmælendur eru enn fyrir utan sendiráðið. Óeirðalögregla fylgist með og að sögn fréttaritara BBC í Kaíró hafa heyrst skothvellir og sést varla á milli húsa vegna táragassins sem hefur verið sprautað á mótmælendur sem hafa kveikt í bifreiðum og hjólbörðum við sendiráð Ísraels.
Hatur Egypta á Ísraelum hefur aukist mjög að undanförnu eftir að Ísraelar gerðu árás sem kostaði fimm egypska lögreglumenn lífið við landamæri Ísreal þann 18. ágúst sl.