Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands á árunum 1997 til 2007, upplýsti í viðtali við breska útvarpið, BBC, um helgina að hann hefði næstum fyrirskipað árás á farþegaþotu í breskri lofthelgi eftir að hún svaraði ekki kalli frá flugturni. Atvikið var í kjölfar árásanna 11. september.
Frá þessu er greint á vef breska dagblaðsins Guardian.
Sagði Blair að flugmenn orrustuþotna hefðu verið settir í viðbragðsstöðu til að skjóta farþegaþotuna niður samkvæmt lagaákvæðum sem samþykkt voru í kjölfar hryðjuverkastríðsins, sem svo hefur verið nefnt. En umrædd farþegaþota mun hafa vikið eilítið af leið.
Tilgreindi Blair ekki hvaða ár atvikið hefði gerst en sagði það hafa verið „ógnvekjandi stund“ að standa frammi fyrir hættunni, sem svo reyndist tilefnislaust.