Hagfræðingurinn Harry Dent, höfundur bókarinnar The Great Crash Ahead, spáir hruni Dow Jones-vísitölunnar á næstu misserum. Vísitalan muni falla úr um 10.800 stigum í dag niður í 3.000 stig árið 2013. Dent bendir á að fjölmenn kynslóð Bandaríkjamanna sé hætt að eyða og byrjuð að spara.
„Ég held að hlutabréfahrunið hafi byrjað síðla í apríl. Þetta er aðeins fyrsta niðursveiflan... Ég held að hrunið hefjist fyrir alvöru snemma árs 2012,“ sagði Dent í samtali við CNBC-viðskiptastöðina en hann er jafnframt forstjóri fjármálafyrirtækisins HS Dent.
Fjölmenn kynslóð Bandaríkjamanna kom í heiminn á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina.
Sú kynslóð, sem til dæmis Clinton-hjónin tilheyra, hefur náð hámarki í neyslu sinni, ef svo má að orði komast, að sögn Dents, og er þess í stað farin að leggja fyrir fé. Sú kynslóð hafi ýtt undir fasteigna- og hlutabréfaverð með kaupgetu sinni en nú sé komið að kaflaskilum.
Í hönd fari vítahringur þar sem stjórnvöld reyni að halda lífi í fjármálamörkuðum með því að ausa í þá fé. Það dugi hins vegar ekki til enda sé áðurnefnd kynslóð hætt að taka lán í sama mæli, sem aftur komi niður á rekstri fjármálafyrirtækja.
En unga fólkið á erfitt með að koma inn á fasteignamarkaðinn og leggja fyrir fé.
Spáir Dent því að fasteignaverð eigi eftir að lækka enn meira í Bandaríkjunum og að m.a. vesturströnd Kanada, Kína og Ástralía eigi eftir að lenda í miklum efnahagslegum hremmingum á næstu misserum.
Í ljósi þess að skuldastaða margra þjóðríkja leggi orðið miklar byrðar á efnahagskerfi þeirra skorar Dent á stjórnmálamenn að beita sér fyrir afskriftum á skuldum, svo byrðin léttist og hjól atvinnulífsins snúist hraðar á nýjan leik.