Sagðist hafa flogið með geimverum

Meintur fljúgandi diskur í New Jersey.
Meintur fljúgandi diskur í New Jersey.

Bandaríkjamaður, sem fullyrti árið 1973 að geimverur hefðu rænt sér, er látinn í Mississippi, áttræður að aldri. Frásögn mannsins vakti talsverða athygli á sínum tíma.

Charles E. Hickson sagðist hafa verið ásamt Calvin Parker, vini sínum, að veiða í Pascagoulaá í suðurhluta Mississippi 11. október 1973 þegar fljúgandi diskur kom aðvífandi og rændi þeim félögum. Sagði Hickson, að þeim hefði síðan verið sleppt.

Hickson, sem var 42 ára þegar þetta gerðist, og Parker, sem var 19 ára, ákváðu fyrst að þegja um málið enda töldu þeir að enginn myndi trúa frásögn þeirra. Þeir gátu hins vegar ekki þagað lengi og sögðu fréttamanni sögu sína.

Báðir gengust þeir Hickson og Parker undir lygamælingu og stóðust prófið. Þeir voru einnig yfirheyrðir eftir að hafa verið dáleiddir en að sögn lögreglumanna héldu þeir alltaf fast við sögu sína.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert