Sjö látnir í Kabúl

Í það minnsta sjö eru fallnir eftir árásir talibana á byggingar NATO og bandaríska sendiráðsins í  í Kabúl í dag. Íslensk kona, sem hefst við í höfuðstöðvum alþjóðlega friðargæsluliðsins í borginni, sagði við Ríkisútvarpið, að hún byggist við að dvelja í byggingunni fram á nótt.

Sigrún Andrésdóttir, sem vinnur fyrir Íslensku friðargæsluna í Kabúl, sagði í síðdegisútvarpi Rásar 2, að þetta væri í fyrsta skipti sem hún upplifði árás af þessu tagi frá því hún kom til borgarinnar. Hún sagði að viðbrögð við svona ástandi væru mjög þjálfuð og hún óttaðist því ekki um líf sitt.

Fjórir Íslendingar starfa í höfuðstöðvum fjölþjóðahersins í Kabúl, tvær í höfuðstöðvum fjölþjóðahersins og tveir á flugvellinum og amar ekkert að þeim, að sögn Sigrúnar.

Að minnsta kosti sjö háværar sprengingar heyrðust í dag í diplómatahverfi höfuðborgarinnar og fylgdi skothríð í kjölfarið sem stóð yfir í um fimm klukkustundir. Sendi bandaríska sendiráðið út skilaboð til starfsmanna sinn að leita skjóls þegar talibanarnir komu sér fyrir á hárri skrifstofubyggingu sem verið er að byggja í nágreninu.

Sjö klukkustundum eftir að árásirnar hófust voru afganskar og alþjóðlegar öryggissveitir að reyna að fjarlægja síðustu árásarmennina. Þrír þeirra eru þegar fallnir. Segja embættismenn að tveir séu enn í byggingunni.

Að sögn talsmanns innanríkisráðuneytisins féllu, fjórir óbreyttir borgarar og þrír lögreglumenn í árásunum og þremur öðrum minni árásum sem tengdust. Þá eru tíu borgarar sárir og níu lögreglumenn.

Hafa árásirnar í dag dregið fram bágt ástand öryggismála í Kabúl þar sem uppreisnarmenn hafa staðið fyrir æ kræfari árásum undanfarið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert