Afleiðingarnar verða harkalegar og alvarlegar ef Palestínumenn halda því til streitu að sækja um aðild að Sameinuðu þjóðunum. Þetta segir harðlínumaðurinn Avigdor Lieberman, utanríkisráðherra Ísraels. Útskýrði hann ekki frekar hvað hann ætti við með þeim orðum þegar fréttamenn leituðu eftir því.
Áður hefur Lieberman lagt til að Ísraelar slíti öll tengsl við stjórn Mahmuds Abbas, forseta Palestínumanna, ef hún reyni að fá aðild að SÞ.
„Það sem ég get sagt með mestri vissu er að frá þeirri stundu sem þeir taka einhliða ákvörðun þá verða afleiðingarnar harkalegar og alvarlegar. Ég vona að það komi ekki til þessara harkalegu og alvarlegu afleiðinga og að heilbrigð skynsemi fái að ráða í öllum þeim ákvörðunum sem eru teknar þannig að við getum lifað saman og haldið áfram samningaviðræðum,“ segir Lieberman.
Sumir harðlínumenn í röðum ráðherra í ríkisstjórn Ísraels hafa hvatt til þess að hlutar Vesturbakkans verði teknir yfir ef Palestínumenn halda áfram með áform sín.