Kostnaður Dana vegna þátttöku í loftárásum NATO í Líbíu er 447,5 milljónir danskra króna, sem er jafnvirði tæpra tíu milljarða íslenskra króna. Líbía er auðugt olíuríki og landsmenn þar eiga sjálfir að greiða fyrir sprengjuárásir NATO.
Þetta er skoðun Danska þjóðarflokksins, sem styður ríkisstjórn Venstre og íhaldsmanna. Stjórnarflokkurinn Venstre, flokkur Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra, segir þetta ekki koma til greina.
„Vegna olíunnar er Líbía auðugt land og því ættu Danir að krefjast þess að Líbíumenn greiði sjálfir hluta af kostnaðnum við loftárásir NATO, sem voru gerðar í því skyni að frelsa þjóðina,“ segir Søren Espersen, talsmaður Þjóðarflokksins í samtali við vefsíðu danska dagblaðsins Jyllands-Posten.
Máli sínu til stuðnings segir hann að Kúveitar hafi sjálfir greitt hluta kostnaðarins við Persaflóastríðið.
Michael Aastrup Jensen, talsmaður Venstre, segir að NATO hafi starfað í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna og að það sé í andstöðu við stefnu SÞ að senda þurfandi þjóðum reikninginn.
Aftur á móti telur Jensen að það sé sjálfsagt að Líbíumenn greiði sjálfir þann kostnað sem hlýst af enduruppbyggingu í landinu.