Yfir fjórðungur óeirðaseggja sem ákærðir hafa verið fyrir þátt sinn í óeirðunum í Bretlandi í síðasta mánuði höfðu brotið oftar en tíu sinnum af sér áður. Kemur þetta fram í tölum sem breska dómsmálaráðuneytið birti í dag.
Segir Kenneth Clarke, dómsmálaráðherra, að þetta sýni að um glæpamenn hafi verið að ræða þau fjögur kvöld sem kom til óeirða og verslanir voru rændar í nokkrum borgum Bretlands. Segir ráðherrann að dómskerfið þurfi að taka breytingum til þess að hinum ákærðu verði refsað á viðeigandi hátt og tekið verði harðar á síbrotamönnum.
Yfir 1.700 manns hafa verið ákærðir fyrir brot sem tengjast óeirðunum.