Hóta neitunarvaldi á SÞ-umsókn

Bandaríkjamenn hafa neitunarvald í öryggisráði SÞ og hafa ítrekað beitt …
Bandaríkjamenn hafa neitunarvald í öryggisráði SÞ og hafa ítrekað beitt því í málefnum Ísraels. BRENDAN MCDERMID

Bandarísk stjórnvöld hóta því að beita neitunarvaldi sínu ef tillaga verður lögð fyrir öryggisráðið um að Palestínumenn fái aðild að Sameinuðu þjóðunum. Segja þau það einu leiðina til þess að hjálpa Palestínumönnum að stofna alvöru ríki.

Hafa áform Palestínumanna um að sækjast eftir aðild að SÞ vakið reiði stjórnvalda í Washington og í Ísrael. Segja Bandaríkjamenn að það gæti skaðað friðarviðræður og að palestínskt ríki geti aðeins orðið til með samningaviðræðum við Ísraela.

Er haft eftir talsmanni Hvíta hússins að tilraun Palestínumanna virki gegn þeirra eigin hagsmunum og færi þá fjær því takmarki sínu að stofna eigið ríki. Reyna sendinefndir frá Bandaríkjunum og Evrópu nú að færa fulltrúa Palestínumanna og Ísraela aftur að samningaborðinu til að taka upp þráðinn í friðarviðræðum sem fóru út um þúfur í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert