Helle Thorning-Schmidt, foringi danskra jafnaðarmanna, gekk í dag á fund Margrétar Danadrottningar í Amalienborg og fékk umboð til að leiða stjórnarmyndunarviðræður.
„Nú hefur hennar hátign farið þess á leit við mig að leiða viðræðurnar, svo nú getum við byrjað,“ sagði Helle Thorning-Schmidt í samtali við Danska útvarpið. Hún sagði viðbúið að hún settist í stól forsætisráðherra þótt enn væri ekki ákveðið hverjir settust í ráðherrastólana.