Hrun evru yki líkur á stríði

Við höfuðstöðvar Seðlabanka Evrópu í Frankfurt.
Við höfuðstöðvar Seðlabanka Evrópu í Frankfurt. Reuters

Fari svo að evrusvæðið gliðni í sundur og ógni tilvist Evrópusambandsins í kjölfarið gæti það til lengri tíma litið aukið líkurnar á stríði í álfunni. Fjármálaráðherra Póllands, Jacek Rostowski, lagði fram þessa dökku sýn í viðtali við viðskiptastöðina CNBC í gær.

„Ef evrusvæðið myndi gliðna í sundur sýnist erfitt að útiloka möguleikann á því að Evrópusambandið brotni líka í sundur. Evrópusambandið hefur verið einn af tveimur burðarásum friðar og öryggis í Evrópu undanfarna sex áratugi,“ sagði Rostowski.

„Þar af leiðandi er sú hætta á sjóndeildarhringnum til lengri tíma litið, segjum 10 til 20 ára, að sé einni grunnstoð öryggiskerfis okkar kippt burt sem og einni meginstoð stjórnmálakerfis okkar, sem tryggir að við tökum á vandamálum á þann lýðræðislega máta sem við höfum þróað, að það auki líkurnar á alls kyns stjórnmálahreyfingum sem hallast að einræði og þar með jafnvel stríði til lengri tíma litið,“ sagði Rostowski í lauslegri þýðingu úr ensku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert