Putin: Berlusconi er öfundaður

Samkvæmt Vladimir Putin er Silvio Berlusconi skotspónn öfundarmanna.
Samkvæmt Vladimir Putin er Silvio Berlusconi skotspónn öfundarmanna. Reuters

„Þeir sem gagnrýna Berlusconi eru einfaldlega öfundsjúkir vegna frækilegrar framgöngu hans á kynlífssviðinu.“ Þetta sagði Vladimir Pútín, forseti Rússlands, á alþjóðlegri fjárfestingarráðstefnu í rússnesku borginni Sochi i morgun.

„Þrátt fyrir að herra Berlusconi hafi sætt gríðarlegri gagnrýni vegna einstakra viðhorfa sinna til hins fagra kyns, þá hefur hann sýnt fram á að vera ábyrgur ráðamaður,“ bætti Pútín við.

Ummælin lét Pútín falla þegar verið var að ræða efnahagsaðgerðir Ítala.

Berlusconi hefur verið ákærður fyrir að hafa greitt 17 ára gamalli stúlku fyrir kynlíf og átta manns voru kærðir í gær fyrir að hafa útvegað vændiskonur í svallveislur á hans vegum.

Náið persónulegt samband mun vera með þeim Pútín og Berluscon, en þeir mæra hvor annan gjarnan á opinberum vettvangi og hafa sótt hvor annan heim í sumarleyfinu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem viðlíka ummæli Pútíns vekja furðu. Árið 2006 lýsti hann yfir aðdáun sinni á Moshe Katsav, fyrrverandi forseta Ísraels, sem var kærður fyrir að hafa nauðgað tíu konum. Þótti Pútín mikið til karlmennsku Katsavs koma og sagði að hann væri öfundaður af mörgum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert