„Sigri fylgja skyldur“

Helle Thorning-Schmidt fagnar sigri á kosningavöku Jafnaðarmannaflokksins í gærkvöldi.
Helle Thorning-Schmidt fagnar sigri á kosningavöku Jafnaðarmannaflokksins í gærkvöldi.

Sigur Helle Thorning-Schmidt í dönsku þingkosningunum í gær var sögulegur. En ritstjórar dönsku dagblaðanna telja að róðurinn verði þungur fyrir þennan fyrsta kvenkyns forsætisráðherra Danmerkur.

Þetta kemur fram í leiðurum dönsku dagblaðanna í dag.

Í leiðara Berlingske Tiderne segir að vissulega sé um söguleg úrslit að ræða, ekki  síst vegna þess að nú muni Sósíalíski þjóðarflokkurinn eiga sæti í ríkisstjórn í fyrsta skipti, en Thorning-Schmidt lýsti því yfir í gær að hún vildi einnig að Radikale Venstre og Enhedslisten myndu eiga aðild að stjórninni.

Leiðarahöfundur telur að stjórnarinnar bíði erfitt verkefni, því að hugmyndir hennar um efnahagsmál bjóði ekki upp á skýrar lausnir um hvernig tryggja eigi velferðarkerfið í framtíðinni.

Í leiðara Politiken segir að sigrinum fylgi miklar skyldur. „Nú liggur það fyrir að niðurstöðurnar eru ný ríkisstjórn Jafnaðarmanna, Radikale og Sósíalíska þjóðarflokksins,“ skrifar leiðarahöfundur. Fyrir henni liggur að endurvekja drifkraft og trú á framfarir í landinu.“

Jyllands-Posten skrifar að Helle Thorning-Schmidt hafi sannarlega unnið sigur, en að „hún muni vakna upp til veruleika, þar sem sigurinn geti auðveldlega snúist upp í Pyrrusarsigur, sem geti snúist í höndunum á henni og orðið að ósigri.

Kristilega dagblaðið skrifar að starfsaðstæður Thorning-Schmidt verði erfiðari en margra fyrirrennara hennar og B.T. segir undir fyrirsögninni „Helle sigurvegari“ að hún verði nú að sýna leiðtogahæfni af allra bestu gerð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert