Evrópusambandið vonast til þess að geta sannfært forystumenn Palestínumanna um að hætta við beiðni sína um að fá fulla aðild að Sameinuðu þjóðunum síðar í þessum mánuði í staðinn fyrir að áheyrnaraðild þeirra fái meira vægi, samkvæmt frétt írska dagblaðsins Irish Times í dag.
Bæði ESB og Bandaríkin óttast að ósk Palestínumanna muni draga úr möguleikunum á að hægt verði að koma á nýjum friðarviðræðum á milli þeirra og stjórnvalda í Ísrael. Þá bera ísraelskir ráðamenn að ef af slíku yrði myndi það útiloka allar viðræður.
Utanríkismálastjóri ESB, Catherine Ashton, hefur lagt til áðurnefnda málamiðlunartillögu en þó þannig að ekki sé lokað á möguleikann á fullri aðild að Sameinuðu þjóðunum í framtíðinni.