Norska lögreglan er bjartsýn á að það takist að forða því að strandferðaskipinu Nordlys hvolfi í höfninni í Álasundi. Slagsíða á skipinu var í kvöld 15 gráður, að sögn aðgerðastjóra lögreglunnar í Sunnmöre.
Hann sagði í samtali við ABC Nyheter að tekist hefði að dæla meira úr skipinu en rennur inn í það. Tekist hafði að rétta skipið við en mest var slagsíðan 22 gráður. Kafarar leita nú að götum á skipsskrokknum til þess að geta þétt lekann.
Takist að rétta strandferðaskipið af verður það dregið í slipp skammt frá Álasundi. Nú þegar er búið að þétta rifu sem var 38 sentimetra löng og 8 sentimetra breið og var troðið í hana smjöri, að sögn Dagbladet.