Evrópa hafnar gagnrýni

Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu.
Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu. ALEX DOMANSKI

Evrópuríki fara betur í gegnum efnahagskreppuna en keppinautar þeirra á alþjóðamarkaði segir seðlabankastjóri Evrópu. Svarar hann bandarískum stjórnvöldum fullum hálsi en þau hafa gagnrýnt viðbrögð Evrópubúa við fjármálakreppunni.

„Yfir heildina litið er [ástandið] líklega betra en í öðrum stærri þróuðum hagkerfum,“ sagði Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu, þegar viðræðum fjármálaráðherra Evrópusambandsins í Póllandi lauk í dag. Ollu orð Timothys Geithners, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sem var gestur á fundinum, fjaðrafoki. Gagnrýndi hann hvernig tekið hefði verið á kreppunni í Evrópu og hvatti ríkin til að leggja meira fé í björgunarpakka fyrir skuldsett ríki.

Sagði Trichet að skuldastaða annarra ríkja utan Evrópu væri verri og evrusvæðið í minni hættu en mörg önnur. Duldist líklega engum að þar ætti hann við Bandaríkin og skuldavandræði þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert