Mótmælum bægt frá Wall Street

Fólk mótmælti bönkum og stórfyrirtækjum á götum í nágrenni Wall …
Fólk mótmælti bönkum og stórfyrirtækjum á götum í nágrenni Wall Street í dag. Reuters

Hundruð mótmælenda gengu í dag um götur í nágrenni Wall Street í New York en borgaryfirvöld komu í veg fyrir að fólkið kæmist inn í hjarta fjármálahverfisins til að mótmæla þar græðgi, spillingu og niðurskurði.

Mótmælendurnir höfðu ætlað sér að setjast að í Wall Street þar til tekið yrði eftir reiði þeirra vegna fjármálakerfisins sem þeir segja að hygli hinum ríku og valdamiklu. Lögreglan lokaði hins vegar öllum götum í nágrenni kauphallarinnar í New York og Alríkissalarins á neðri hluta Manhattan löngu áður en mótmælagangan náði þangað.

„Öll eigum við það sameiginlegt að við erum 99 prósentin sem munu ekki umbera lengur græðgi og spillingu eina prósentsins,“ stendur í yfirlýsingu sem birtist á vefsíðunni Occupy Wall Street. Tímaritið Adbusters stofnaði hreyfinguna í júlí síðastliðnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert