Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, segir umsókn Palestínumanna um að vera teknir inn í Sameinuðu þjóðirnar dæmda til að mistakast. Þeir muni á endanum leita eftir því að viðræður verði teknar upp að nýju.
„Sú tilraun mun mistakast þar sem hún þarf að fara í gegnum öryggisráðið,“ sagði Netanyahu við upphaf ríkisstjórnarfundar í dag.
Mahmud Abbas, forseti Palestínumanna, hafði lofað að hann myndi óska eftir aðild að SÞ við öryggisráðið á föstudag þrátt fyrir einarða andstöðu Ísraelsmanna og Bandaríkjamanna. Segja ríkisstjórnir landanna að aðeins beinar viðræður geti leyst deilu Palestínumanna og Ísraela. Hafa bandarísk stjórnvöld þegar lýst því yfir að þau beiti neitunarvaldi sínu til að koma í veg fyrir tilraun Palestínumanna eins og þau hafa margsinnis gert í málefnum Ísraels.
„Vegna þeirra aðgerða sem Bandaríkin hafa gripið til og annarra ríkisstjórna sem við og Bandaríkjamenn vinnum með spái ég að þessi tilraun mistakist. Á endanum, þegar hægist um og eftir allt sem gerist hjá SÞ, vona ég að Palestínumenn átti sig, hætti þessum tilraunum til þess að fara í kringum samningaviðræður og komi aftur að samningaborðinu til að koma á friði við okkur og nágranna okkar,“ sagði Netanyahu.
Sagðist hann ennfremur ætla að ávarpa SÞ í vikunni og reyna að fá Palestínumenn til að halda áfram samningaumleitunum.