Ein úr Kennedyfjölskyldunni látin

Kara Kennedy, dóttir bandaríska  öldungadeildarþingmannsins Edwards Kennedys, lést í gær 51 árs gömul.

Að sögn fjölskyldu hennar fékk Kara Kennedy skyndilegt hjartaáfall þar sem hún var við æfingar í líkamsræktarstöð í Washington. 

Faðir hennar, sem var bróðir Johns F. Kennedys, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sat á Bandaríkjaþingi í 47 ár en lést af völdum krabbameins í heila árið 2009. Dóttir hans starfaði sem kvikmyndaframleiðandi en árið 1988 stýrði hún kosningabaráttu föður síns. 

Árið 2002 greindist Kara Kennedy með lungnakrabbamein og var um tíma ekki hugað líf. Með aðstoð föður síns komst hún í samband við skurðlækni í Boston sem var tilbúinn til að reyna aðgerð og sú aðgerð heppnaðist fullkomlega.

Kara Kennedy giftist siglingamanninum Michael Allen árið 1990 og þau eignuðust tvö börn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert