Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, stærði sig af því að hafa eytt nóttu með átta stúlkum og kvartaði undan því að fundir með páfanum og Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, trufluðu samkvæmislíf hans. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í upptökum af símahlerunum sem gerðar hafa verið opinberar og tengjast rannsókn á vændishring.
Voru þær birtar þegar rannsókn lauk á athafnamanninum Gianpaolo Tarantini sem sakaður er um að hafa greitt konum til þess að sænga hjá Berlusconi árið 2008 og 2009. Ekki er verið að rannsaka Berlusconi en upptökurnar benda til þess að fullyrðingar hans um að hann hafi aldrei greitt fyrir kynlíf séu ekki fullkomlega sannleikanum samkvæmar. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu.
„Í gærkvöldi var röð fyrir utan svefnherbergið mitt. Þær voru ellefu en ég tók aðeins átta því ég gat ekki haldið áfram. Heyrðu, öll rúmin eru full hér, þetta lið ætlar ekki heim til sín, ekki einu sinni þó þeim sé ógnað með byssu,“ sagði Berlusconi við Tarantini árið 2009. Þá sagði Berlusconi við dansara að hann væri aðeins forsætisráðherra í frítíma sínum.
Í september 2008 sagði forsætisráðherrann svo við Tarantini að hann þyrfti að draga úr straumi stúlkna heim til sín því að hann ætti „hræðilega viku“ framundan því hann þyrfti að hitta Benedikt páfa, Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, Angelu Merkel, kanslara Þýskalands og Gordon Brown.