Tillögur Baracks Obamas Bandaríkjaforseta um að tryggja það að milljónamæringar borgi hlutfallslega jafnháan skatt og miðstéttarfólk er stéttastríð að sögn Lindsey Graham, öldungadeildarþingmanns repúblikanaflokksins. Slíkt hefði lítil áhrif á skuldastöðu ríkisins.
Búist er við að forsetinn leggi á morgun fram tillögur um svokallaðan Buffett-skatt til að tryggja það að efri stéttir borgi sama skatthlutfall og miðstéttin. Sumir milljarðamæringar í Bandaríkjunum fá mikla skattaafslætti þar sem fjármagnstekjuskattur og skattar á arð og aðrar slíkar greiðslur er lægri en tekjuskattur.
„Skattalögum ætti aðeins að breyta af einni ástæðu: til þess að skipa störf. Þegar þú segist ætla að skattleggja eitt prósent af hagkerfinu þá er það stéttastríð. Ég held að þetta sé bara pólitískur leikur hjá forsetanum,“ sagði Graham í dag, en Graham er þingmaður Suður-Karólínu. Þess í stað lagði hann til að skattalögum væri breytt þannig að hvers kyns afslættir yrðu lagðir af og að flötum tekjuskatti yrði komið á.