Það sem gerðist á milli Dominique Strauss-Kahn og herbergisþernunnar í New York var siðferðislegur brestur af hans hálfu og að hann væri ekki stoltur af því. Fullyrðir hann í sjónvarpsviðtali að hann hafi hins vegar hvorki reynt að nauðga henni né franskri blaðakonu sem einnig hefur borið hann þeim sökum.
Sagðist Strauss-Kahn hafa brugðist bæði trygglyndri konu sinni og frönsku þjóðinni. Viðurkenndi hann að hafa gefið upp á bátinn vonir sínar um að fara í forsetaframboð.
„Það var ekkert ofbeldi né þvingun í því sem gerðist, ekkert glæpsamlegt athæfi,“ sagði Strauss-Kahn við fréttakonuna Claire Chazal en hún er vinkona eiginkonu fyrrverandi framkvæmdastjórans.
Þá neitaði Strauss-Kahn ásökunum um að hann hafi reynt að nauðga ungri blaðakonu í París árið 2003. Sagði hann þá frásögn sem komið hefði fram í fjölmiðlun vera uppspuna og aðdróttanir.
Þrátt fyrir það sagðist hann augljóslega ekki geta boðið sig fram til forseta á næsta ári og sagðist ekki ætla að taka nokkurn þátt í kappræðum í forvali sósíalistaflokksins fyrir þær. Hann ætlaði að taka sinn tíma til þess að íhuga framtíð sína í kjölfar hneykslismálanna.