Viðskiptaritstjóri sjónvarpsþáttarins BBC Newsnight, Paul Mason, segir á Twitter-síðu sinni í dag að hann sé nýkominn til Grikklands til þess að fylgjast með efnahagskrísunni þar. Hann hafi eftir komuna heyrt ræðu flutta af fjármálaráðherra landsins, Evangelos Venizelos, sem hafi í reiði sinni beint spjótum sínum að blaðamönnum sem væru að segja frá stöðu mála í landinu og sagt þá óvini grísku þjóðarinnar.
Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph greinir frá þessu í dag og segir að Mason hafi ennfremur sagt á Twitter að mótmælendur í Grikklandi væru farnir að ráðast á blaðamenn.