Deilt um dauðadóm í Georgíu

Reuters

Mál bandrísks fanga, Troy Davis, er tekið fyrir af nefnd sem fer með náðun fanga í Georgíu í dag. Taka á Davis af lífi á miðvikudag en hann hefur verið á dauðadeild í tuttugu ár.

Hann var dæmdur til dauða fyrir að hafa myrt lögregluþjón í borginni Savannah árið 1989. Talið er að um ein milljón manna, víðsvegar um heiminn hafi skrifað undir bænaskjal um að hann verði ekki tekinn af lífi.

Talið er að 150-200 mótmælendur séu fyrir utan réttarsalinn þar sem tekist er á um mál Davis í dag. Von er á niðurstöðu nefndarinnar síðar í dag. 

Í síðustu viku fengu yfirvöld í Georgíu afhent bænarskjal með nöfnum 650 þúsund einstaklinga sem vilja að hætt verði við aftökuna. Á síðustu þremur dögum hafa safnast tæplega 200 þúsund undirskriftir en aftökunni hefur verið mótmælt á um 300 stöðum víðsvegar um heiminn, meðal annars í New York, Washington, Perú, París og Ósló.

Stephen Bright, lagaprófessor við Yale, segir málið mjög sérstakt þar sem verulegur vafi leikur á því hvort Davis hafi framið morðið og hafa slíkar efasemdir verið uppi í áratug.

Sjö af níu sem vitnuðu um morðið við réttarhöldin yfir Davis árið 1991 hafa dregið vitnisburð sinn til baka eða breytt honum. Davis hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu og segja stuðningsmenn hans að engin sönnunargögn séu fyrir hendi. Til að mynda hafi morðvopnið aldrei fundist, engin lífsýni bendi til sektar hans né fingraför. Eins hafa vitni komið fram sem segja að annar maður hafi framið morðið en sá bar vitni gegn Davis á sínum tíma.

Þykir málið allt hið furðulegasta og segja ýmsir að það sé gott dæmi um þá spillingu sem ríki í réttarkerfið í suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem svartur maður er ranglega sakaður um morð á hvítum lögreglumanni.

Fyrir tveimur árum dæmdi Hæstiréttur Bandaríkjanna að málið yrði endurupptekið eftir að Amnesty International beitti sér fyrir því. Hins vegar komst dómstóll í Savannah að því að ekki hefði tekist að sýna fram á sakleysi Davis og því skyldi dauðadómurinn standa.

Troy Davis
Troy Davis
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert