Fundurinn ekki skilað öðru en „heitu lofti“

Evran í forgrunni á höfuðstöðvum Seðlabanka Evrópu í Frankfurt.
Evran í forgrunni á höfuðstöðvum Seðlabanka Evrópu í Frankfurt. Reuters

„Stjórnmálamenn Evrópusambandsins hafa ekki lært af þeim þrýstingi sem markaðurinn hefur sett á þá og enn einum fundi fjármálaráðherra sambandsins er lokið án nokkurra samræmdra aðgerða,“ hefur fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph eftir Simon Denham, framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækisins Capital Spreads, í dag.

Hann segir fjármálamarkaðina hafa gert sér vonir um að samkomulag næðist um aðgerðir til þess að ná tökum á versnandi skuldakreppu evrusvæðisins en að ekkert hafi komið út úr fundi fjármálaráðherranna í Póllandi um helgina annað en „heitt loft“.

„Innst inni hljóta fjárfestar að hafa vitað að ekkert kæmi út úr fundinum. Þetta var bara enn eitt tækifærið fyrir stjórnmálamennina til þess að sýnast og segja „við ættum virkilega að gera eitthvað í skuldavanda evrusvæðisins þar sem við erum að missa tökin á honum“, og fá sér síðan annan kaffibolla og vona að vandamálið hverfi,“ segir Denham.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert