Krefjast þjóðaratkvæðis um ESB

Fánar Evrópusambandsins.
Fánar Evrópusambandsins. Reuters

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, verður að boða til þjóðaratkvæðis um veru landsins í Evrópusambandinu (ESB) eða standa að öðrum kosti frammi fyrir uppreisn í þingflokki breska Íhaldsflokksins. Þetta eru skilaboðin í grein sem Mark Pritchard, þingmaður flokksins, ritaði í breska dagblaðið Sunday Telegraph í gær.

Pritchard, sem að auki er annar framkvæmdastjóra 1922-nefndarinnar svokölluðu, sem eru samtök almennra þingmanna Íhaldsflokksins, segir í greininni að margir Bretar séu þeirrar skoðunar að ESB hafi tekið yfir stjórn Bretlands og sé að gera að engu fullveldi landsins. Ekki sé lengur hægt í því sambandi að treysta skilyrðislaust á stuðning almennra þingmanna Íhaldsflokksins.

„Ríkisstjórnin ætti að samþykkja að halda þjóðaratkvæði um ESB og spyrja hvort Bretland ætti að vera hluti af pólitísku sambandi eða fríverslunarsamtökum eins og við héldum  að við værum að taka þátt í,“ segir Pritchard í grein sinni þar sem hann sakar Cameron um að hafa gengið á bak orða sinna þegar hann lofaði slíku þjóðaratkvæði fyrir síðustu þingkosningar. Segir hann að slík þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að fara fram á næsta ári.

Pritchard er einn af forystumönnum í hópi 120 þingmanna Íhaldsflokksins sem nýverið mynduðu með sér samtök sem ætlað er að þrýsta á bresk stjórnvöld að draga úr sambandi Bretlands við ESB. Aukin áhersla þingmanna íhaldsmanna á að losa um tengslin við sambandið hefur valdið miklum titringi í ríkisstjórnarsamstarfinu við frjálslynda demókrata og er talið að skrif Pritchards verði til þess að auka enn á hann.

Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph segir frá.

Grein Mark Pritchards

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert