Bandarísk stjórnvöld reyna nú allt hvað þau geta til þess að finna lausn á deilunum um beiðni Palestínumanna um aðild að Sameinuðu þjóðunum. Barack Obama Bandaríkjaforseti er nú kominn til New York þar sem allsherjarþing SÞ fer fram.
„Við trúum áfram og leggjum áherslu á að eina leiðin til að ná lausn sem felur í sér tvö ríki, sem er sú lausn sem við styðjum og viljum sjá verða ofan á, sé í gegnum samningaviðræður,“ segir Hillary Clinton, utanríkisráðherra.
Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur óskað eftir fundi með Mahmud Abbas, forseta Palestínumanna, í New York í vikunni. Ætlar Abbas að leggja fram beiðni um aðild að SÞ á föstudag.