Börnin fengu riffla í verðlaun

AK-47 árásarriffill.
AK-47 árásarriffill. Reuters

Börn sem unnu keppni sómalískrar útvarpsstöðvar í því að lesa upp úr Kóraninum fengu AK-47 riffla og handsprengjur í verðlaun. Útvarpsstöðin er í eigu hryðjuverkasamtakanna Shebab. Auk vopnanna og peninga fengu börnin trúarrit í verðlaun.

Í fyrstu verðlaun Andalus-útvarpsstöðvarinnar var AK-47 riffill og jafnvirði rúmlega 80 þúsund króna. Samskonar riffil fékk sá sem lenti í öðru sæti auk tæplega 60 þúsund króna en sá sem lenti í þriðja sæti fékk tvær F1-handsprengjur og um 46 þúsund krónur. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu.

Birtust myndir á heimasíðu útvarpsstöðvarinnar af talsmanni samtakanna, Sheikh Mukhtar Robow, afhenda börnunum verðlaunin í Elasha Biyaha, tæplega tuttugu kílómetra frá höfuðborginni Mógadisjú.

Shebab-samtökin ráða yfir stórum hluta suðurhluta Sómalíu og reyna þau að steypa bráðabirgðaríkisstjórninni í Mógadisjú af stóli. Hafa samtökin verið skilgreind sem hryðjuverkasamtök af mörgum vestrænum ríkisstjórnum og eru þau talin hafa tengsl við Al-Qaeda.

Aðhyllast þau öfgafulla útgáfu af íslam og hafa samtökin bannað tónlistarhringitóna í símum, kvikmyndir, dans í brúðkaupum, útsendingar frá knattspyrnuleikjum og jafnvel búðarskilti á ensku eða sómalísku í stað arabísku.






mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert