Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði í ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag að ekki væri hægt að stytta sér leið að friði á milli Palestínumanna og Ísraelsmanna. Fyrst yrði að semja um frið áður en hægt væri að stofna sjálfstætt ríki Palestínumanna.
Obama varði mestum tíma í að ræða málefni Palestínu enda eru þau mjög í sviðsljósinu eftir að Palestínumenn tilkynntu að þeir myndu óska eftir fullri aðild að SÞ.
Bandaríkjamenn hafa hótað að beita neitunarvaldi í öryggisráðinu og koma þannig í veg fyrir aðild Palestínu. Obama ræddi ekki um beitingu neitunarvalds í dag en sagði að aðeins samningaviðræður gætu leitt til friðar. „Yfirlýsingar og ákvarðanir hjá Sameinuðu þjóðunum leiða ekki til friðar - ef málið væri svo einfalt væri löngu kominn friður,“ sagði hann. Ísraelsmenn og Palestínumenn yrðu að semja áður en hægt væri að stofna sjálfstætt ríki í Palestínu, um landamæri og öryggi, um flóttamenn og stöðu Jerúsalem.
Studdi aðild fyrir ári
Umsókn Palestínumanna hefur komið Obama í bobba því aðeins er ár liðið frá því hann, í ræðu hjá SÞ, sagði að Palestína ætti að fá aðild að SÞ innan árs. „Mér fannst þá - og ég er enn þeirrar skoðunar - að Palestínumenn eigi rétt á að stofna sitt eigið ríki,“ sagði hann en bætti við að Ísraelsmenn yrðu þá að hafa fengið algjöra fullvissu um að öryggi Ísraels yrði tryggt. „Verum hreinskilin: Ísrael er umkringt ríkjum sem hafa margoft ráðist á landið.“ Leiðtogar mun stærri þjóða hefðu hótað að þurrka Ísrael út af landakortinu.
Eftir ræðuna hittust þeir Obama og Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Netanyahu hrósaði þá forsetanum fyrir andstöðuna gegn fullri aðild Palestínu.
Alls stóð ræða Obama í 47 mínútur. Hann ræddi mikið um frelsisölduna í arabaheiminum og hrósaði m.a. þeim sem, með friðsamlegum hætti, komu Hosni Mubarak frá völdum í Egyptalandi.