Fjármálaráðherra Grikklands sagði í þingræðu í dag, að Grikkir myndu verða á evrusvæðinu áfram og stjórnvöld myndu gera það sem í þeirra valdi stæði til að tryggja það.
„Grikkland er og verður um alla framtíð hluti af evrusvæðinu,“ sagði Evangelos Venizelos, fjármálaráðherra Grikklands.
Allt útlit er nú fyrir að Grikkir fái greitt nú í september samkvæmt lánasamningi, sem gerður var í fyrra við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Um er að ræða átta milljarða evra, sem gríska ríkið þarf til að standa við aðrar skuldbindingar sínar og komast þannig hjá greiðslufalli.