Eftir að ferjan Norræna kom til Þórshafnar í Færeyjum frá Danmörku á mánudag sást minkur á hlaupum á bryggjunni og tókst ekki að handsama hann, að því er kemur fram á fréttavef Sosialsins.
Í síðustu viku sást minkur um borð í Norrænu en talið er að hann hafi farið um borð í skipið í Hirtshals í Danmörku. Tókst að elta minkinn uppi og vinna á honum.
Lögregla biður almenning að láta vita ef það sér til dýrsins. Óttast er að minkurinn komist í fuglabjörg eða hænsnahús og valdi þar tjóni en Færeyjar hafa verið minkalausar til þessa.
Hafa gildrur verið settar upp á hafnarsvæðinu og víðar en minkurinn hefur ekki náðst.
Sosialurin hefur eftir Jens-Kjeld Jensen, sem sagður er afar fróður um dýr, að það sé alvarlegt að minkur hafi sloppið inn í landið. Minkar séu verri rándýr en rottur því hann éti allt sem að kjafti kemur, geti synt langar vegalengdir og sé fljótur að laga sig að nýju umhverfi.
„Það væri mikil ógæfa, ef minkur kemst í lundavarp og fari hann inn í hænsnahús drepur hann öll hænsnin þótt hann sé ekki svangur. Hann er „lystmyrðari"," hefur blaðið eftir Jensen.