Fulltrúar Bandaríkjanna leiddu hóp fulltrúa á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem gekk út undir ræðu forseta Írans, Mahmouds Ahmadinejads. Fylgdu fulltrúar Evrópusambandsríkjanna á eftir þeim er Ahmadinejad hóf að gagnrýna vesturveldin. Þetta hefur AFP-fréttastofan eftir heimildum.
Án þess að nefna nokkurt land á nafn réðst hann harkalega á hlutverk Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í stríðum og í fjármálakreppunni og sagði ríkin styðja kynþáttahatur. Ríkin veikja lönd með hernaðaríhlutun sinni og eyðileggja innviði landanna til þess að komast yfir auðlindir þeirra.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hófst í New York í gær.