Óskarsverðlaunahafinn Michael Moore hvetur fólk til þess að sniðganga Georgíuríki í Bandaríkjunum vegna aftöku Troys Davis í nótt.
Á vef sínum krefst Moore, sem meðal annars hefur gert kvikmyndirnar Fahrenheit 9/11, Bowling for Columbine og Sicko, til þess að endurminningar hans, Here Comes Trouble, sem nýverið komu út, verði teknar úr sölu í bókaverslunum í Georgíu.
„Ég hvet alla sem ég þekki til þess að fara aldrei til Georgíu, að kaupa ekkert sem framleitt er í Georgíu og eiga engin viðskipti í Georgíu,“ skrifar Moore á vef sinn. Hann hefur beðið útgefanda sinn að fjarlægja endurminningarnar úr bókabúðum í Georgíu. Ef það verði ekki gert heitir hann því að hver einasta króna sem kemur inn af sölu bókarinnar í Georgíu renni til baráttunnar gegn kynþáttahatri og morðingja sem stjórna ríkinu.
Davis var tekinn af lífi í Jackson-fangelsinu í nótt þrátt fyrir að efasemdir séu um að hann hafi framið morðið sem hann var dæmdur fyrir árið 1991.