Forseti Jemens sneri heim

Ali Abdullah Saleh, forseti Jemens, sneri óvænt til baka til Jemens í dag, en hann hefur verið í Saudi-Arabíu síðustu þrjá mánuði vegna læknismeðferðar. Gerð var tilraun til að ráða hann af dögum í sumar.

Sjónvarpsstöð í Jemen segir að forsetinn hafi komið til höfuðborgarinnar Sanaa með einkaflugvél í morgun. Frekari upplýsingar komu ekki fram í fréttinni.

Saleh hefur verið við völd í Jemen í 30 ár. Eftir að mótmæli hófust í landinu snemma á þessu ári gaf hann yfirlýsingu um að hann myndi ekki bjóða sig fram að nýju þegar kjörtímabili hans lýkur árið 2013. Þetta hefur ekki dugað til að kveða niður mótmæli gegn stjórn hans. Krafa mótmælenda er að hann segi strax af sér.

Undanfarnir dagar hafa verið sérstaklega blóðugir í Jemen, en öryggissveitir stjórnarinnar hafa skotið á mótmælendur. Nokkrir tugir hafa fallið.

Ali Abdullah Saleh forseti Jemens særðist í sumar og er …
Ali Abdullah Saleh forseti Jemens særðist í sumar og er greinilega ekki gróinn sára sinna. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert