Blair átti marga fundi með Gaddafi

Tony Blair.
Tony Blair. Reuters

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, átti sex einkafundi með Múammar Gaddafi, þáverandi einræðisherra Líbíu, eftir að Blair lét af embætti um mitt árið 2007. 

Fram kemur í blaðinu Sunday Telegraph í dag, að fimm þessara funda hafi átt sér stað á 14 mánaða tímabili áður en skoska heimastjórnin lét Lockerby-sprengjumanninn Abdelbaset al-Megrahi lausan.

Vaxandi þrýstingur er nú á Blair að veita upplýsingar um efni funda hans og viðræðna við Gaddafi. Telegraph upplýsti í síðustu viku að í tvö skipti að minnsta kosti hefði Blair flogið til Tripoli í einkaþotu sem líbísk stjórnvöld tóku á leigu.

Telegraph upplýsir einnig í dag að breska utanríkisráðuneytið hafi á síðasta ári veitt Hana, dóttur Gaddafis, vegabréfsáritun til Bretlands. Fullyrt hafði verið að Hana hefði látið lífið í loftárás Bandaríkjamanna á Líbíu árið 1986.

Þá segir blaðið að bresk stjórnvöld hafi einnig verið í samskiptum við  Khamis Gaddafi, son einræðisherrans fyrrverandi, en hersveitir, sem Khamis stjórnaði, eru sakaðar um mörg grimmdarverk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert