Óvænt niðurstaða hjá repúblikunum á Flórída

Herman Cain.
Herman Cain. Reuters

Herman Cain, fyrrum forstjóri skyndibitakeðjunnar Godfather's Pizza, fékk óvænt mesta fylgið í skoðanakönnun Repúblikanaflokksins á Flórída í aðdraganda forsetakosninga sem fara fram á næsta ári.

Skoðanakönnunin er ekki bindandi en þar fékk Cain, sem er 65 ára, 37,1% atkvæða. Rick Perry, ríkisstjóri í Texas og sá sem þykir nú líklegastur til að verða forsetaefni flokksins, fékk 15,4% og Mitt Romney, fyrrum ríkisstjóri í Massachusetts, fékk 14%.  

Rick Santorum fékk 10,88% og Michele Bachmann, fulltrúi Teboðshreyfingarinnar, fékk aðeins 1,51%.  

Þótt skoðanakannanir af þessu tagi séu frekar prófsteinn á skipulag flokkanna í hverju ríki en afstöðu kjósenda til frambjóðenda, munu þeir tæplega 3 þúsund, sem tóku þátt í könnuninni í gær hafa áhrif á það hver verður frambjóðandi flokksins. 

Úrslit í Flórída skipta miklu máli í forsetakosningum. Flórída ræður yfir 29 kjörmönnum en 270 þarf til að vinna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert