Sjö ríki Evrópusambandsins (ESB) sem gengu í sambandið á árunum 2004 til 2007 hafa áhyggjur af skuldbindingu sinni að taka upp evruna í samræmi við aðildarsamninga þeirra. Svo kann að fara að ríkin boði til þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort taka eigi hana upp samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar. Greint er frá þessu á fréttavefnum Euractiv.com.
Ráðamenn í Búlgaríu, Tékklandi, Ungverjalandi, Lettlandi, Litháen, Póllandi og Rúmeníu segja að evrusvæðið sem þeir töldu sig vera að ganga í, þ.e. myntbandalag, kunni mjög líklega að verða að lokum gerbreytt bandalag sem byggi á miklu nánari fjármálalegri, efnahagslegri og pólitískri samruna en áður hafi verið gert ráð fyrir.
Af þeim tólf ríkjum sem gengu í ESB á árunum 2004 til 2007 hafa fimm þeirra þegar tekið evruna í notkun sem gjaldmiðil sinn; Slóvenía, Malta, Kýpur, Slóvakía og Eistland. Af þeim ríkjum sem áður voru orðin aðilar að sambandinu fyrir þann tíma hafa Bretland, Svíþjóð og Danmörk kosið að standa utan evrusvæðisins. M.ö.o. eru öll ríki ESB, sem ekki hafa þegar tekið evruna upp sem gjaldmiðil, orðin því afhuga samkvæmt fréttinni.
Gæti kallað á þjóðaratkvæði
Haft er eftir ónafngreindum embættismanni í frétt AFP að ráðamenn allra sjö ríkjanna séu sammála um að breytt lagaleg staða evrusvæðisins kunni að breyta forsendum í aðildarsamningum þeirra sem aftur gæti leitt til þess að halda þurfi sérstök þjóðaratkvæði um það hvort taka skuli evruna upp sem gjaldmiðil.
Þá segir í fréttinni að ráðamenn ríkjanna sjö hafi farið fram á að fá að taka þátt í viðræðum um hugsanlegar umbætur á evrusvæðinu en slíkar viðræður eru vanalega lokaðar öðrum en fulltrúum evruríkja. Haft er eftir ráðherra Evrópumála í pólsku ríkisstjórninni, Mikolaj Dowgielewicz, að eðlilegt sé að þau ríki sem ætlast er til að taka upp evruna komi að þeim viðræðum.
Vilja undanþágu frá evrunni
Fram kemur að fyrir efnahagskrísuna á evrusvæðinu hafi mörg hinna nýju Evrópusambandsríkja, sem séu nálægt því að uppfylla skilyrðin fyrir því að verða aðilar að svæðinu og þar á meðal Pólland og Búlgaría, sett sér metnaðarfullar áætlanir um að taka evruna upp sem allra fyrst.
Undanfarin misseri hafi hins vegar fjölmargir pólskir embættismenn lýst því yfir að Pólland hafi lagt á hilluna allar áætlanir um að gerast aðili að evrusvæðinu þar til ljóst verði hver framtíð evrunnar kunni að verða.
Einnig er rifjað upp í fréttinni að í apríl síðastliðnum hafi ráðamenn í Ungverjalandi gefið í skyn að þeir myndu sækjast eftir því að fá undanþágu frá því að gerast aðilar að evrusvæðinu. Þá sé ekki langt síðan forseti Tékklands, Václav Klaus, hafi sagt að myntbandalag ESB væri misheppnað og að veita ætti heimalandi hans varanlega undanþágu frá þeirri skuldbingu að taka upp evruna.