Um 300 mótmælendur hrópuðu „Skömm, skömm!“ og „Handtakið Dick Cheney!“ þegar fyrrum varaforseti Bandaríkjanna kynnti bók sína In My Time: A Personal and Political Memoir hjá Bon Mot bókaklúbbnum í Vancouver í Kanada í gær.
Sögðu mótmælendur Cheney m.a. hafa látið pyntingar viðgangast í stríði George Bush gegn hryðjuverkum og fóru fram á að kanadísk yfirvöld létu fangelsa hann.
„Ég er hissa og vonsvikin yfir því að honum hafi verið hleypt inn í Kanada,“ sagði Gail Davidson, meðlimur Lögfræðinga gegn stríði, við AFP fréttastofuna.
„Kanada á ekki að vera griðarstaður fólks sem hefur látið pyntingar viðgangast,“ sagði þingmaðurinn Don Davies. „Þetta er skammarlegt gagnvart umheiminum og þetta er skammarlegt hér innanlands.“
Samtökin Human Rights Watch, sem starfa frá New York, höfðu hvatt til þess að kanadísk stjórnvöld létu fangelsa Cheney og rannsaka ásakanir um að hann hefði átt þátt í því að fangar hefðu verið pyntaðir í kjölfar árásanna 11. september.
„Nægar sannanir um pyntingar, m.a. á tveimur kanadískum ríkisborgurum, liggja því til grundvallar að Kanada fari að sáttmálanum gegn pyntingum og láti rannsaka Cheney,“ sagði m.a. í tilkynningu sem samtökin sendu frá sér á laugardag.