Kína hefur bæst í hóp þeirra ríkja sem hafa lýst óánægju með þá ákvörðun Ísraela að leyfa byggingu á 1.100 heimilum á landsvæði í austur Jerúsalem. Evrópusambandið og Bandaríkin hafa nú þegar fordæmt ákvörðunina.
„Kína lýsir djúpri eftirsjá sinni og mótmælir samþykki Ísrael á útbreiðslu landnámssvæða gyðinga í austur Jerúsalem,“ sagði talsmaður utanríkisráðuneytisins við blaðamenn í dag. „Kína hvetur Ísrael til að hegða sér sómasamlega,“ bætti hann við.
Innanríkisráðuneyti Ísrael tilkynnti á þriðjudag að leyfi hefði verið gefið fyrir byggingunum í Gilo-hverfi en um væri að ræða einn áfanga fyrirhugaðrar stækkunar hverfisins.
Palestínskir leiðtogar segja ákvörðunina í raun vera nei-svar við tillögum um að hefja friðarviðræður á ný.