Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur krafist formlegrar afsökunarbeiðni eftir að talsmaður þess í málefnum kreppunnar á evrusvæðinu var ítrekað kallaður vitleysingur af öðrum gesti í þætti á breska ríkisútvarpinu BBC.
Talsmaðurinn Amadeu Altafaj gekk út úr þættinum Newsnight á BBC þar sem hann var gestur. Hafði greinarhöfundur blaðsins The Daily Telegraph sem er efasemdamaður um Evrópusamstarfið ítrekað kallað hann vitleysing.
„Grundvöllur allrar vinnu og nálgun okkar við fjölmiðla er virðing og fagmennska. Hún var ekki í heiðri höfð í þessu tilfelli. Augljóslega bíðum við eftir því að þeir sem málið varðar biðjist afsökunar,“ segir Pia Ahrenkilde, talsmaður framkvæmdastjórnarinnar.