Sagt að börn þeirra væru á lífi

Reuters

Norska lögreglan veitti að minnsta kosti þremur fjölskyldum rangar upplýsingar um afdrif ungmenna á Utøya eftir að Anders Behring Breivik myrti þar 69 manns í júlí. „Það er eins og sonur minn hafi dáið tvisvar," segir ein móðirin við vef Aftenposten.

Blaðið segir að Trine E. Aamodt, móðir Diderik Aamodt Olsens, sem var 19 ára, hafi fengið tilkynningu frá lögreglu, tveimur dögum eftir fjöldamorðin, um að sonur hennar lægi særður á sjúkrahúsi. Þremur dögum síðar, fimm dögum eftir hryðjuverkaárásirnar, fékk konan staðfest að sonur hennar væri látinn.

„Ég get ekki fyrirgefið lögreglunni hve hún var ósjálfbjarga þennan föstudag," segir Trine við Aftenposten.   

Blaðið segir að lögreglan í Ósló hafi fengið lista frá Verkamannaflokknum þar sem stóð að staðfest væri að Olsen lægi á sjúkrahúsi. Verkamannaflokkurinn segir að um hafi verið að ræða mistök vegna þess hve erfitt var að hafa yfirsýn yfir stöðu mála. 

Aftenposten hefur eftir Trond Henry Blattman, formanni stuðningshóps sem stofnaður var eftir fjöldamorðin, að hann hafi heyrt af þremur tilfellum þar sem fjölskyldur fengu rangar upplýsingar. Í einu tilfellinu var fjölskyldu tilkynnt að ungmenni hefði látið lífið en það var hins vegar á lífi. Blattmann missti sjálfur 17 ára gamlan son á Utøya. 

Blaðið hefur eftir upplýsingafulltrúa lögreglunnar í Ósló að málið verði rannsakað en það sé hörmulegt að veittar hafi verið rangar upplýsingar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert